English

Self-Transcendence 2 mílna Tjarnarhlaupið þriðjudaginn 1. mars var hlaupið í blíðskaparveðri; alveg stillt, bjart og mjög fallegt veður. Það var svolítið kalt en þó ekki þannig að það væri hlaupurunum til trafala. Það var líka mjög gaman að geta haldið hlaupið í bærilegri birtu.
Þessar fínu aðstæður skiluðu sér í ýmsum Tjarnarhlaupsmetum, en eins og áður hefur verið getið, leggur Sri Chinmoy mikið upp úr því að menn keppi við sjálfa sig og bæti sig, enda gefur það hlaupinu enn meira gildi.
Fyrst ber að nefna að skipuleggjendur mótsins settu met, þ.e. nýtt þátttökumet á þessu ári. Fimm hlauparar tóku þátt og þarf að leita allar götur til síðasta hlaupsins á síðasta ári, 30. nóvember, til að finna jafn góða þátttöku. En metþátttakan í Tjarnarhlaupunum frá upphafi stendur enn, en það eru átta þátttakendur, sem sett var 14. september og jafnað 12. október.
Tveir fyrstu hlaupararnir settu personuleg met:
Andrés kom fyrstur á 12:27 sem er hans besti tími á árinu. Áður átti hann best 13:10 á þessu ári, en sá tími kom 18. janúar. Andrés hefur ekki hlaupið jafn hratt síðan 26. október, en þá hljóp hann á 12:16.
Í öðru sæti varð Ágúst á 14:24 sem er hans besti tími frá upphafi og óskum við honum til hamingju með það!!! Fyrr átti hann best 14:38 og kom sá tími í hlaupinu 7. september, þannig að þessi framför hans var búin að liggja lengi í loftinu.
Þriðji var Upajukta á 15:28 og voru skref hans þung.

Víðir kom óvænt í fjórða sæti en hann kláraði á 16:39 þrátt fyrir að hafa ekki byrjað hlaupið, og er það okkur enn ráðgáta hvernig þetta atvikaðist. Tími hans er því settur innan sviga meðan málið er í rannsókn.
Restina rak svo Davíð massi sem lagði meira upp úr skriðþunganum en hraðanum. Hann skilaði sér á 18:41 eftir að hafa hlaupið fyrri hring á 8:43.
En allir fimm hlaupararnir komu kátir í mark og er óhætt að segja að Tjarnarhlaupið horfi fram á bjartari tíma með hækkandi sól, enda hugur í mönnum.
Úrslit (millitími eftir 1 mílu innan sviga):

1.Andrés 12:27 (6:06)
2.Ágúst 14:24 (7:08)
3.Upajukta 15:28 (7:21)
(4.Víðir 16:39 (7:49))
5.Davíð 18:41 (8:43)