3. dagur - 1. ágúst
Ég vaknaði um morguninn og fann fyrir brennandi þrá að hlaupa. Hingað til hafði ég haldið mig í bakgrunninum; tekið myndir og hjálpað til, enda ekki í formi til að gera neitt meira. En nú fann ég óbyggðirnar kalla og svaraði því með stuttu hlaupi.
Eftir morgunmat brugðum við Rúnar og Rúnar okkur í Ásbyrgi, enda höfðum við ekki haft tíma til að skoða okkur almennilega um þar daginn áður. Svæðið er náttúrulega afskaplega fallegt og það er alls ekki of mikið af svona fallegum trjágróðri hér á Íslandi. Það sem hafði þó enn meiri áhrif á okkur en fegurð svæðisins var kyrrðin. Við príluðum upp að klettunum, þar sem við höfðum útsýni til allra átta, og þar fundum við svo sannarlega fyrir kyrrðinni. Ég dvaldi þarna drykklanga stund og virti fyrir mér útsýnið og fylgdist með fuglunum og var gagntekinn af kyrrðinni.
Eftir þessa skemmtilegu ferð í Ásbyrgi keyrðum við að Dettifossi og komum að austan frá, en hlaupið daginn áður hafði hafist vestan frá. Hér vorum við í góðum hópi ferðamanna sem velflestir voru með myndavélarnar á lofti. Við vorum allir snortnir af kraftinum sem býr í Dettifossi, rétt eins og kyrrðin býr í Ásbyrgi, og skemmtum okkur við að taka myndir drykklanga stund.
Lokin á þessum skemmtilega degi voru þegar við fórum í heita laug við Mývatn með hinum strákunum. Eftir þetta skyldust leiðir: ég dvaldi síðustu nóttina hjá föðurfjölskyldu minni á Akureyri.
Skemmtilegri ferð er lokið, en hver veit nema við gerum þetta aftur að ári liðnu?!