Víðir Sigurðsson breytti um viðhorf og setti nýtt persónulegt met í Self-Transcendence Tjarnarhlaupi




|
|
English
Víðir Sigurðsson er sá hlaupari sem hefur sýnt einna mestan stöðugleika í Self-Transcendence Tjarnarhlaupunum, en það er ekki endilega gott!
Víðir hóf þátttöku í Self-Transcendence Tjarnarhlaupum þann 14. september á síðasta ári og hljóp þá á tímanum 16:09. Ágætis tími, en í raun svo ágætur að Víði veittist erfitt að bæta hann svo einhverju næmi.
Víðir setti persónulegt met sitt, 15:52, þann mikla metdag 12. október, en svo var eins og allt hrykki í baklás - það var sama hvað Víðir reyndi, honum tókst ekki að slá þetta met.
Frá og með 2. nóvember á síðasta ári til og með 17. maí á þessu ári, ef undan er skilið hlaupið 16. nóvember þegar hlaupið var í fannfergi, lentu allir tímar Víðis á 40 sekúndna bili frá 16:07 (8. mars) til 16:47 (2. nóvember). Segja má að á þessu tímabili hafi Víðir verið sá hlaupari sem sýndi mestan stöðugleika, en það er ekki endilega gott, í það minnsta ekki ef maður hefur hæfileika til að bæta sig. Og Víðir hefur hæfileikann til að bæta sig, það sannaði hann í hlaupinu 24. maí þegar hann hljóp á nýju og glæsilegu meti; 15:02.
Víðir sagði í viðtali eftir hlaupið að nú yrði ekki aftur snúið. Hann væri búinn að komast að því að það væri mun skemmtilegra að hlaupa hratt en hægt. Að hlaupa hratt væri vissulega erfitt, en það væri líka skemmtilegt og maður fyndi laun erfiðisins. Að hlaupa hægt væri bara erfitt og ekki skemmtilegt.
Svo mörg orð voru það. Víðir virðist vera búinn að finna hlauparann í sér og ætlar sér nú að ná árangri. Hann hefur þegar gefið það út að næsta markmið sé að fara undir 15 mín. og honum ætti ekki að verða skotaskuld úr því.
En hvernig sem Víði vegnar þá er hann kominn í hóp með þeim sem hafa áttað sig á því hversu gefandi það er að vinna í eigin framförum (self-transcendence eins og Sri Chinmoy nefnir það), í þessu tilfelli á hlaupabrautinnni. Velkominn í hópinn, Víðir! |