Meðlimir íslenska Sri Chinmoy maraþonliðsins hlaupa með einum helsta ofurmaraþonhlaupara Finnlands.



|
|
English version
Í maímánuði síðastliðnum brugðu þrír hlauparar úr íslenska Sri Chinmoy maraþonliðinu undir sig betri fætinum og sóttu Finnland heim. Það voru ég (Suren), Snatak og Ganagane. Í Finnlandi tókum við hús á Ashprihanal Aalto, en hann er einn helsti ofurmaraþonhlaupari Finnlands og meðlimur Finnlandsdeild samtaka okkar.
Ashprihanal hefur sigrað þrisvar í 3100 mílna hlaupi, sem hið alþjóðlega Sri Chinmoy maraþonlið heldur á ári hverju, en stuttu eftir heimsókn okkar bætti hann einmitt þriðja sigrinum við. Það kom því ekki annað til greina en að fá að hlaupa með meistaranum.
Ashprihanal var reyndar að hvíla sig eftir 6 daga hlaup sem hann hafði nýlega hlaupið, svo úr varð stutt skokk í miðbæ Helsinki. Í för með okkur slógust Jigyasu og Jatnaban úr finnska Sri Chinmoy maraþonliðinu og úr varð hið allra skemmtilegasta hlaup í sól og blíðu.
Ekki varð hjá því komist að taka eftir athyglisverðum hlaupastíl Ashprihanals; það er eins og hann skoppi áfram frekar en hlaupi. Með þessu er ég ekki að reyna að kasta rýrð á hlaupastíl hans, eða hann sem hlaupara, heldur, þvert á móti, gæti ég trúað að þetta væri afar sniðugur hlaupastíll. Ég get ímyndað mér að með þessu móti lágmarki hann orkueyðsluna og álagið á líkamann, enda er það nauðsynlegt þegar menn eru að hlaupa í 110 km á dag í 46 daga.
Þegar á allt er litið var þetta afar skemmtileg og árangursrík heimsókn og skemmtileg minning sem við tókum með okkur heim. Já! og við létum taka mynd af okkur við styttu af hlaupagoðsögninni Paavo Nurmi.
|